Aníta getur ekki talað eða skilið flóknar upplýsingar. Hún er 28 ára gömul og tjáir sig að mestu með svipbrigðum og barnalegum hljóðum. Verði hún spennt þvær hún sér um hendur. Þegar blæðingar valda henni krömpum og óþægindum stynur hún og engist um og skilur ekki hvað er að gerast.

Umönnunaraðilar á sambýli í Reykjavík lögðu til óvenju ágenga leið til að lina þessi mánaðarlegu óþægindi og auðvelda þeim að annast hana. Stjórnandi sambýlisins lagði til að Aníta undirgengist legnám, sem er umfangsmikil skurðaðgerð, til að fjarlægja legið hennar og binda endi á blæðingarnar.

Eiríkur Smith, starfsmaður hjá Réttindagæslu fatlaðs fólks, komst á snoðir um þetta á síðasta ári þegar hann var í reglubundinni heimsókn á sambýlinu.

„Veit hún yfir höfuð hvort hún vilji eignast börn síðar?“ spurði hann þá.

Hann sagði að stjórnandinn hafi orðið steinhissa. „Hún hló upp í opið geðið á mér.“

Samkvæmt Eiríki svaraði hún: „Auðvitað ekki. Af hverju myndi hún nokkurn tíma vilja eignast börn?“

Þvingaðar ófrjósemisaðgerðir eru bannaðar samkvæmt mörgum alþjóðasáttmálum enda eiga þær sér sögu um rasisma og kynbótastefnu. Þrjátíu og sjö Evrópuríki og Evrópusambandið hafa fullgilt Istanbúlsáttmálann þar sem lýst er yfir að ófrjósemisaðgerðir án samþykkis séu undantekningalaust mannréttindabrot.

En rannsókn New York Times leiddi í ljós að í meira en þriðjungi þessara landa voru gerðar undantekningar og oft í tilfellum fólks sem ríkisvaldið taldi of fatlað til að geta veitt samþykki. Í sumum löndum er athæfið bannað en þó ekki refsivert. Opinber eftirlitsaðili með Istanbúlsáttmálanum hefur einnig ítrekað gagnrýnt ríki fyrir að gera ekki nægilega mikið til að vernda fatlað fólk. (Bandaríkin hafa undirritað en ekki fullgilt annan sáttmála um málefnið og lög um ófrjósemisaðgerðir eru ólík milli ríkja).